Króm / e: Chromium

Króm er nauðsynlegt fyrir orkubúskap líkamans vegna hlutverks þess í efnaskiptum glúkósa. Það er einnig mikilvægt í efnahvörfum kólesteróls, fitu og próteina. Þetta ómissandi steinefni stuðlar að stöðugu blóðsykurmagni með því að bæta nýtingu insúlíns. Slíkt getur komið sér vel bæði hjá fólki með sykursýki og blóðsykurskort, en það skyldi þó haga inntöku króms í samráði við lækni. Króm hefur verið notað með góðum árangri til að hækka góða kólestrólið (HDL), lækka vonda kólesterólið (LDL) og lækka blóðsykur í blóði. Það er einnig talið hindra slagæðastíflur og hjartasjúkdóma ásamt því að auka virkni ónæmiskerfisins. Rannsókn sem gerð var á einstaklingum með unglingabólur leiddi í ljós að þeir unnu ekki úr sykri á fullnægjandi hátt. Einn þeirra sem að rannsókninni stóð vild ganga svo langt að líkja gelgjubólum við ,,sykursýki húðar. Talið er að króm geti haft góð áhrif á húð sumra þeirra einstaklinga sem kljást við gelgjubólur.

Króm, einkum í formi króm pikkólínats, hvetur til þyngdartaps og uppbyggingar vöðva og er því mikið notað bæði af einstaklingum í megrun og þeim sem stunda íþróttir. Hærra hlutfall vöðva eykur getu líkamans til að brenna fitu. Íþróttamenn þurfa mun meira magn af krómi en aðrir, þar sem áreynsla eykur útskilnað þess margfalt. Í bókinni ,,Hættum að eldast er þeirri kenningu varpað fram að króm stuðli að langlífi og hægi á öldrun. Þar segir að ómögulegt sé að fá nægilegt króm úr fæðunni einni saman. Króm nýtist líkamanun best í forminu krómíum pikkólínat.

Króm er helst að finna í bjór, ölgeri, hýðishrísgrjónum, skelfiski, osti, kjöti, heilu korni, þurrkuðum baunum, kálfalifur, kjúklingi, maís og maísolíu, mjólkurafurðum, eggjum, sveppum, eplum, bönunum og kartöflum. Því miður inniheldur fæðan ekki alltaf það króm sem eðlilegt mætti teljast, vegna krómskorts í jarðvegi. Talið er að fæði almennings í Bandaríkjunum innihaldi of lítið magn króms sem er sögð ástæða fjölgandi tilfella offitu, blóðsykurskorts, forstigs blóðsykurskorts og sykursýki. Hvítur sykur, hvítt hveiti, hreyfingarleysi og sjoppufæði eru gagnvirk krómi.

Einkenni krómskorts geta verið gláka, kvíði, þreyta, sykuróþol, óeðlileg efnaskipti amínosýra og aukin hætta á beingisnun.

Ráðlagðir dagsskammtar eru:

  • ungbörn 0-6 mánaða: 10-40 mg
  • ungbörn 6-12 mánaða: 20-60 mg
  • börn 1-3 ára: 20-80 mg
  • börn 4-6 ára: 30-120 mg
  • bæði kyn 7 ára og eldri: 50-200 mg

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.