Túnfífill / e: Dandelion / lat: Taxacum officinate

Túnfífillinn er einn versti óvinur garðeiganda. Hann fjölgar sér hratt og festir rætur eins og límdur væri við jörðina. Fífillinn er þó ekki bara plága því lækningarmáttur hans og notagildi í mat hefur verið þekkt í aldaraðir.

Laufin eru mjög næringarrík og innihalda A, C, D, og B-vítamín sem og járn, magnesíum, sink, mangan, kopar, kólín, kalk, boron en einna mest af kalíum.1 Þau eru notuð fersk í salöt áður en þau eru fullvaxin, einnig er hægt að fá þau niðursoðin í krukku og þykja mikið lostæti í S-Evrópu. Líka eru þau notuð þurrkuð í te, hafa vökvalosandi áhrif og hafa því reynst þunguðum konum vel og öðrum sem þjást af bjúg.

Rætur fífilsins voru áður fyrr víða notaðar sem „lifrarseyði“ þar sem menn höfðu áttað sig á að þær styrkja starfsemi lifrarinnar. Var því fólki með vandamál eins og hægðatregðu, höfuðverk, augnvandamál, húðvandamál, þreytu og þvagsýrugigt bent á að borða fíflarætur. Í dag byggja náttúrulæknar þekkingu sína á þessu og nota fíflarætur til að „afeitra“ eða hreinsa lifrina.2 Einnig hafa ræturnar reynst vel við liðagigt. Þá er talið að fífillinn geti minnkað hliðarverkanir af lyfjum sem lifrin vinnur úr, sem og dregið úr sjúkdómseinkennum ef lifrin er ekki fullkomlega heilbrigð. Hins vegar verður að taka fram að enn skortir rannsóknir til að staðfesta þetta.

Eins og aðrar beiskar jurtir er fíflarót notuð til að auka matarlyst og meðhöndla minniháttar meltingarvandamál, s.s. hægðatregðu.3 Beiskjan veldur einnig aukinni framleiðslu á galli og flæði þess frá lifrinni.4,5,6,7 Mæla því grasalæknar með fíflarótum fyrir þá sem eru líklegir til að vera með lélega lifrarstarfsemi, t.d. vegna óhóflegrar áfengisneyslu, eftir langvarandi lyfjatöku eða vegna lélegs mataræðis. Aukið gallflæði getur haft jákvæð áhrif á fituefnaskipti, að kólesteróli meðtöldu. Einnig hefur þurrkuð rótin verið ristuð og notuð sem kafflíki.

Að öllu jöfnu er notkun á fíflablöðum og -rótum mjög örugg en fólki með gallsteina er ráðlagt að nota fífilinn sparlega. Sé gallflæðið með öllu stíflað ætti ekki að nota túnfífil. Þar sem fífillinn hækkar örlítið magasýrurnar ætti fólk með magasár eða magabólgur að nota fífilinn í hófi. Fólk á blóðsykurslækkandi lyfjum, vatnslosandi lyfjum, insúlíni eða lithium ætti að ráðfæra sig við lækni eða grasalækni áður en byrjað er að nota fífilinn.

Heimildir:

  1. Wichtl M. Herbal Drugs and Phytopharmaceuticals. Boca Raton, FL: CRC Press, 1994, 486-9.
  2. Murray MT. The Healing Power of Herbs: The Enlightened Person’s Guide to the Wonders of Medicinal Plants. 2nd ed. Rocklin, Calif: Prima Publishing; 1995.
  3. Kuusi T, Pyylaso H, Autio K. The bitterness properties of dandelion. II. Chemical investigations. Lebensm-Wiss Technol 1985;18:347-9.
  4. Susnik F. The present state of knowledge about the medicinal plant Taraxacum officinale Weber [in Slovak; English abstract]. Med Razgl. 1982;21:323-328.
  5. European Scientific Cooperative on Phytotherapy. Taraxaci radix (dandelion). Exeter, UK: ESCOP; 1996-1997:2. Monographs on the Medicinal Uses of Plant Drugs, Fascicule 2.
  6. Bohm VK. Studies on the choleretic action of some drugs [in German, English abstract]. Arzneimittelforschung. 1959;9:376-378.
  7. Böhm K. Choleretic action of some medicinal plants. Arzneim-Forsch Drug Res 1959;9:376-8.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.