Spilanthes

Spilanthes jurtin (Spilanthes oleracea), einnig þekkt undir nafninu Para Cress, er upprunin í Suður-Ameríku, finnst einnig í Afríku og er gjarnan ræktuð í hitabeltislöndum. Þetta er lítil jurt sem vex mjög hratt, blöðin eru hjartalaga og má nota þau í salöt. Þau eru beisk á bragðið, líkjast piparmyntu en eru mun bragðsterkari. Blómin eru gul og rauð en bera engin krónublöð. Jurtin inniheldur rokgjarnar olíur, það eru ilmolíur sem gufa auðveldlega upp, tannín og beiskjuefni.

Í Austur-Afríku nota innfæddir jurtina við sár í munni og munnangri og tyggja þá blómin og laufin. Þar er spilanthes einnig notaður til að veiða fisk og er það gert með því að kremja ræturnar og fleygja þeim út í vatnið. Olíurnar í jurtinni eru eitraðar fiskinum og flýtur hann dauður upp á yfirborðið. Athyglisvert þykir að þessar olíur eru algerlega óskaðlegar mannfólki og fiskur veiddur með þessari aðferð því herramannsmatur. Það er virka efnið í spilanthes, spilanthol, sem veldur þessum áhrifum og rannsakaði enskur lyfjafræðingur þetta efni og uppgötvaði að jafnvel þótt það væri blandað í 1:100.000 gæti það drepið moskítólirfur og talið fljótvirkara en skordýraeitur. Það virkar hins vegar aðeins þannig á dýr með kalt blóð. Efnafræðingar hafa hugleitt að framleiða spilanthol til að nota í staðinn fyrir skordýraeitur þar sem það brotnar niður í náttúrunni og skaðar hana ekki né annað dýralíf.

Zulu ættbálkurinn í Afríku hefur lengi notað spilanthes við tannpínu og öðrum sýkingum í munni. Einnig hefur Zulu fólkið notað jurtina við Oidium albicans en það er sveppasýking sem kemur mest fyrir hjá hvítvoðungum, börnum og mjög veiku fólki sem hefur fengið pensilín, aureomycin eða önnur sýklalyf í sama flokki. Ungabörn fá þessa sveppsýkingu gjarnan ef mæðurnar hafa borið sýklalyfjakrem á sýktar geirvörtur. Spilanthes er einnig notaður við snákabiti og er þá bæði borið á bitið (eftir að eitrið hefur verið sogið úr) og tekið inn. Jurtin var notuð á mjög svipaðan hátt í S-Ameríku sem er athyglisvert þar sem samskipti voru ekki mikil á milli þessara tveggja heimsálfa hér áður fyrr.

Spilanthes er notað við sveppasýkingum, s.s. Candida Albicans og fótasveppum. Urtaveig af jurtinni er þá borin á sýktu svæðin, jafnvel sett í bómul og látinn liggja á sýkta svæðinu. Við sýkingum í munni, s.s. munnangri og tannholdsbólgu, er hægt að setja nokkra dropa í vatnsglas og nota sem munnskol. Spilanthes er einmitt að finna í Dentaforce munnskoli frá Vogel. Þegar urtaveigin er tekin inn eru teknir 20 dropar í smá vatni 3 sinnum daglega.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.