Sólhattur / lat: Echinacea

Ónæmiskerfi líkamans er margbrotið og mikilvægt að það sé í lagi til að við höldum heilsu. Hæfni ónæmiskerfisins til að starfa eðlilega minnkar m. a. við streitu, ófullnægjandi fæðu (einkum við mikla sykurneyslu), hreyfingarleysi, reykingar, áfengisdrykkju og lyfjaneyslu. Það má þó styrkja með einföldum jurtum og vítamínum. Jurtir er hægt að nota til að flýta fyrir bata sjúkdóma, en best er þó að nota þær fyrirbyggjandi.

Indíánar Norður-Ameríku þekktu Echinacea eða sólhatt vel og notuðu hann til að lækna sár, skordýrabit og sjúkdóma. Sólhattur er einhvert algengasta bætiefni gegn kvefi og flensu og einnig gefist vel gegn hálsbólgu, eyrnabólgu hjá börnum og jafnvel ennisholubólgum. Einnig hefur gefist vel við unglingabólum að bera á þær jurtaveig úr sólhatti.

Kosturinn við jurt eins og sólhatt er að auk þess að styrkja ónæmiskerfið, vinnur hún sjálf á sýklum og það án þess að skaða gerlagróður meltingarfæranna. Truflanir í meltingarfærum eru því miður leiður og mjög algengur fylgifiskur fúkkalyfjaneyslu. Þó að sólhattur hafi stundum verið nefndur „jurtapensillín“, er það alls ekki fúkkalyf, ekki skylt slíku, en hjálpar líkamanum að standast sjúkdóma og losa sig við þá, án þess að valda neinum aukaverkunum.

Helstu varnir líkamans gegn sjúkdómum eru átfrumur (hvít blóðkorn) og mótefni. Mótefni eru prótín sem myndast í líkamanum þegar í hann berst mótefnisvaki t.d.sýklar. Þessar varnir eru hluti af því sem nefnt er ónæmiskerfi. Trúlega er sólhattur lang mest notaða jurtin á vesturlöndum til að efla ónæmiskerfið, enda lang mest rannsakaða jurtin. Í yfir 300 vísindarannsóknum hafa ónæmisstyrkjandi eiginleikar sólhattsins verið athugaðir. Það eru fjölmörg efni í sólhattinum sem stuðla að þessari verkun.1 Meðal þeirra mest ónæmisstyrkjandi eru stórir fjölsykrungar eins og inúlín, sem örva ákveðinn hluta varnarkerfis líkamans og auka framleiðslu efna fyrir ónæmiskerfið auk þess að efla átfrumur (hvít blóðkorn). Þetta leiðir til aukinnar starfsemi fjölmargra þátta ónæmiskerfisins: framleiðslu T fruma, öflugri átfruma og uppbygging mótefna.1

Við tilraunir á músum var staðfest að Cichoriusýra í jurtinni eykur myndun átfruma (sem eyða sýklum og aðskotaefnum) um 40%. Margar tegundir eru til af Echinacea jurtinni, en öflugasta virkni hefur E. purpurea. Vírusverjandi eiginleikar hennar voru staðfestir í rannsóknum, þar sem frumur meðhöndlaðar með E. purpurea reyndust 50 til 80% ónæmar fyrir vírusum. Vörnin hélst í 24 – 48 klst.2Echinacea eflir ónæmiskerfið jafnvel í heilbrigðu fólki. Þegar hópur af heilbrigðum karlmönnum var látinn taka sólhatt í 5 daga (30 dropa 3 x daglega) jókst máttur hvítra blóðkorna til að drepa bakteríur (leukocyte phagocytosis) um 120%.3

Auk þess að styrkja ónæmiskerfið, eru efni í sólhattinum sem vinna beint á vírusum og draga einnig úr vexti sýkla með því að halda aftur af sýklaensýminu hyaluronidase. Þetta ensím gefa sýklar frá sér til að brjótast í gegnum fyrstu varnarlínu líkamans, hörund og slímhimnur, svo að örverurnar komist inn í líkamann. Dr. Rose-Marie Brinkeborn við heimilislæknamiðstöð Luthagsgården í Uppsala stóð fyrir allstórri tvíblindri rannsókn á áhrifum sólhatts á kvef og flensu. Þetta er ein fyrsta rannsóknin sem lyfjaeftirlitið í Uppsala viðurkennir út frá sömu reglum og gilda fyrir rannsóknir á hefðbundnum lyfjum. Fyrst og fremst var verið að rannsaka áhrif sólhatts á kvef og flensu. Sjúkdómseinkenni hurfu greinilega fyrr hjá þeim sem fengu sólhattinn en hinna sem fengu lyfleysu (placebo) og batinn var hraðastur hjá þeim sem fengu stærsta skammtinn.  Þetta eru sömu
niðurstöður og eldri rannsóknum, m.a. tvíblindri rannsókn með 108 kvefuðum einstaklingum í 8 vikur. Þeir sem fengu sólhatt voru fljótari að ná sér en hinir sem fengu lyfleysu, sýktust sjaldnar, fengu vægari einkenni, auk þess sem verulega hærra hlutfall einstaklinga slapp alveg við að veikjast. Sólhatturinn gagnaðist best þeim sem lélegastir voru fyrir.4

Heimildir:

  1. R. Bauer and H. Wagner, „Echinacea Species as Potential Immunostimulatory Drugs,“ Econ Med Plant Res 5 (1991): 253-321.
  2. Schweizerische Zeitschrift für GanzheitsMedizin 1/94
  3. M. Erhard et al., „Effect of Echinacea, Aconitum, Lachesis and Apis Extracts and their Combinations on
    Phagocytosis of Human Granulocytes,“ Phytother Res 8 (1994): 14-7.
  4. D. Schoeneberger, „The Influence of Immune-Stimulating Effects of Pressed Juice from Echinacea purpurea on the Course and Severity of Colds: Results of a Double-Blind Study,“ Forum Immunologie 8 (1992): 2-12.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.