Piparmynta / lat: Mentha peperita

Piparmynta er sögð krampalosandi, verk- og vindeyðandi og lægja ógleði. Hún hefur verið  ráðlögð konum við ristilkrampa samhliða blæðingum. Jafnframt er hún af mörgum talin geta gagnast þeim sem þjást af IBS eða þarmaóreglu. P

Í grasalækningum er hún þekkt fyrir bæði kælandi og hitandi eiginleika jafnt innvortis sem útvortis. Borin á hörund dregur hún saman æðar, sem virkar kælandi, en þá er meira blóði stýrt til yfirborðs húðarinnar, en aukið blóðstreymi dregur úr bólgum og eykur hita. Þess vegna er hún notuð við kuldabólgum, útlimakulda, til að lina liðverk og kæla bólgur. Einnig er hún mikið notuð í nuddolíur og krem fyrir íþróttafólk bæði til notkunar fyrir átök, til að hita upp, auka blóðrás og súrefnisflæði í vöðvum og eftir átök til að lina verki, þreytu og hjálpa til við úthreinsun mjólkursýru.

Piparmynta hefur sótthreinsandi áhrif bæði sem vökvi og gufa. Hún hefur verið notuð í ilmþerapíu. Ekki má gleyma góðum áhrifum piparmyntu við kvefi og hósta. Piparmynta í heitu vatni með hunangi eða piparmyntusmyrsl borið á brjóst er eitthvað sem margir hafa reynt við kvefi og öðrum umgangspestum.

Japönsk mynta (Mentha arvensis) er gjarnan notuð í piparmyntuafurðir eins og piparmyntutöflur, duft og hylki, vegna þess hve auðug hún er af mentóli, en mentól gegnir lykilhlutverki meðal virkra efna í piparmyntu.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.