Lakkrísrót

Lakkrísrót hefur verið notuð frá alda öðli bæði sem matur og lyf. Jurtin var og er enn hátt metin í kínverskri læknisfræði. Í lakkrísrót er efni sem heitir glycyrrhizin. Sé þess neytt í miklu magni getur það valdið bjúg, hækkuðum blóðþrýstingi og kalíumtapi. Til að nýta megi jákvæða eiginleika lakkrísrótar án þess að eiga þessar aukaverkanir á hættu, er nú hægt að fá lakkrísrót í töflum, þar sem þetta efni, glycyrrhizin, hefur verið fjarlægt og er lakkrísrótin þá deglycyrrhizinated, skammstafað DGL.

Lakkrísrót fyrir magann

Lakkrísrót er auðug af flavonóíðum sem lina þrautir í maga og meltingarfærum. Hún hefur jákvæð áhrif á frumur magans, m.a. eykur hún blóðflæði til þeirra. Jurtin var á árum áður hefðbundin meðferð við magasári í Evrópu.1 Nú fást tilbúin lyf við magasári en DGL er enn notað m.a. til að hindra myndun magasárs af völdum bólguhemjandi lyfja.2. Rannsókn þar sem árangur af notkun DGL var borinn saman við lyfið Tagamed sýndi að þeir sem tóku Tagamed voru fyrr lausir við magasár, en DGL töflur skiluðu hliðstæðum árangri á lengri tíma.3 Ekki þýðir að gleypa hylki sé DGL notað við magasári, heldur verður að nota tuggutöflur, því DGL þarf að blandast ensímum í munnvatni til að koma verkunarferli þess af stað. DGL er einnig ráðlagt við brjóstsviða og magabólgum og líka við munnangri.

Óunnin lakkrísrót (ekki DGL) er notuð við sjúkdómum í öndunarfærum, svo sem hósta og astma. Fólk með háþrýsting, sykursýki eða nýrnasjúkdóma ætti ekki að nota lakkrísrót óunna, en því er óhætt að nota DGL.

Heimildir:

  1. Schulz V, Hansel R, Tyler VE. Rational Phytotherapy: A Physicians’ Guide to Herbal Medicine. 3rd ed. Berlin, Germany: Springer-Verlag; 1998:185.
  2. Rees WD, Rhodes J, Wright JE, et al. Effect of deglycyrrhizinated liquorice on gastric mucosal damage by aspirin. Scand J Gastroenterol. 1979;14:605607.
  3. Morgan AG, McAdam WAF, Pacsoo C, Darnborough A. Comparison between cimetidine and Caved-S in the treatment of gastric ulceration, and subsequent maintenance therapy. Gut 1982;23:54551.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.