Júkka / e: Yucca

Yucca er eyðimerkurplanta sem í aldaraðir hefur verið notuð af indíánum í Ameríku og Mexíkó við ýmsum kvillum. Læknar í Kalíforníu mæla sérstaklega með efni úr yuccaplöntunni við gigtarverkjum. Sjúklingar sem þjást af verkjum í maga og þörmum ásamt gigtinni hafa verið yuccatöflunum sérstaklega fegnir.

Í Bætiefnabókinni eftir þá Harald R. Hóhannesson og Sigurð Ó. Ólafsson, segir: Yucca hefur verið notuð við þvagsýrugigt og bólgum í þvagfærum og blöðruhálskirtli. Einnig hefur yuccan verið notuð við háum blóðþrýstingi og höfuðverkjum af völdum mígrenis. Þekktasta notkunin er sennilega við slitgigt og liðagigt en lyfjaform sem innihalda efnasambönd úr yuccu hafa verið talsvert notuð í þeim tilgangi vestan hafs.

Rannsóknir á þykkni úr Yuccu hafa leitt í ljós að það kemur í veg fyrir æxlismyndun ákveðinnar tegundar krabbameins í músum. Við nánari rannsóknir kom í ljós að tvær tegundir fjölsykra sem innihalda galaktósa og eru í þykkninu eru virkar gegn sortuæxlisfrumum. Miklu meiri rannsókna er þó þörf áður en hægt er að fullyrða neitt um ágæti júkku við krabbameini.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.