Glitbrá / e: Feverfew

Glitbrá er þekkt lækningajurt frá fornu fari. Hún var notuð við ýmsum kvillum en á áttunda áratugnum urðu áhrif hennar gegn mígreni þekkt og er hún í dag fyrst og fremst notuð við þeim sjúkdómi. Á bak við notkun hennar við mígreini er áhugaverð saga. Eiginkona yfirlæknis breska kolanámuráðsins á öndverðum áttunda áratugnum þjáðist af mígreni. Kolanámumaður sem sjálfur hafði notað glitbrá með góðum árangri við sjúkdómnum hafði samband við hjónin og lagði til að konan prófaði jurtina. Hún tók ráðleggingunni með þeim árangri að mígrenið svo gott sem hvarf. Lækninum, eiginmanni hennar, þótti þetta merkilegt og í krafti starfs og stöðu náði hann eyrum sérfræðings í mígreni, dr. E. Stewart Johnson við London Migrain Clinic. Johnson fór strax að prófa jurtina á sjúklingum með ágætum árangri. Í framhaldinu stóð hann að formlegri rannsókn.1 Þó að rannsóknin hafi sýnt jákvæðan árangur þótti hún ekki nógu vel unnin til að þykja marktæk. Engu að síður vakti rannsóknin áhuga á jurtinni og leiddi til annarra vandaðri rannsókna.

Rannsóknir staðfesta virkni glitbrár við mígreni

Til að fá úr því skorið hvort glitbrá gagnast raunverulega við mígreni hafa verið gerðar nokkrar rannsóknir eða tilraunir á fólki. Í öðru tölublaði læknaritsins The Lancet frá 1988 er greint frá niðurstöðum rannsóknar sem gerð var á hópi 59 sjúklinga í 8 mánuði. Fyrstu fjóra mánuðina fékk helmingur sjúklinganna glitbrá daglega en hinn helmingur hópsins fékk lyfleysu. Seinni fjóra mánuðina var þessu snúið við þannig að þeir sem fengið höfðu glitbrána fengu nú lyfleysu og öfugt. Niðurstaða þessarar rannsóknar var sú að hjá þeim sem fengu glitbrá fækkaði mígrenitilfellum um 24% og í þeim hópi dró einnig úr velgju og ógleði meðal þeirra sem fengu mígreniköst.2

Fleiri rannsóknir hafa verið gerðar á mígrenisjúklingum með glitbrá og hafa sumar sýnt mjög jákvæð áhrif á sjúkdóminn en aðrar minni og sumar jafnvel lítil sem engin áhrif. Bent hefur verið á að í þessum tilraunum voru notaðar jurtir sem voru misjafnlega unnar en bestur árangur næst með muldu laufi jurtarinnar, eins og t.d. í Feverfew hylkjunum sem fást í Heilsuhúsinu. Fjöldi fólks hérlendis hefur notað glitbrá með góðum árangri. Á heimasíðu Heilsu má finna ítarlegri ráð við mígreni ásamt frásögn konu losaði sig við þennan þráláta sjúkdóm með breyttu mataræði og inntöku bætiefna, þ.á.m. glitbrá (www.heilsa.is heilsan þín mígreni).

Milliverkanir við lyf

Glitbrá getur hugsanlega dregið ofurlítið úr starfsemi storkufruma í blóði og ætti því ekki að nota með storkuvarnarlyfjum eins og Coumadin (warfarin) eða heparin nema í samráði við lækni.

 

Heimildir:

  1. Johnson ES, Kadam NP, Hylands DM, et al. Efficacy of feverfew as prophylactic treatment of migraine. Br Med J (Clin Res Ed). 1985;291:569573.
  2. Murphy JJ, Heptinstall S, Mitchell JR. Randomised double-blind, placebo-controlled trial of feverfew in migraine prevention. Lancet. 1988;2:189192.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.