Engifer / lat: Zingiber officinale

Engiferrótin er eiginlega sá hluti af stofni jurtarinnar sem vex neðanjarðar en rótarnafnið hefur fest sig í sessi í daglegu tali. Þessi jurt er upprunin í S-Asíu og hefur verið notuð sem krydd og lyf í þúsundir ára. Arabískir kaupmenn fluttu jurtina frá Kína og Indlandi og seldu til Grikkja og Rómverja. Verslunarbækur frá 200 e.Kr. sýna að engifer skilaði miklum hagnaði til Rómverska heimsveldisins. Í kínverskum lækningabókum frá 400 f.Kr. kemur fram að engifer var notaður við ógleði, niðurgangi, magaverkjum, kóleru, tannverkjum, blæðingum og gigt. Seinna fóru kínverskir grasalæknar að nota engifer við ýmsum vandamálum í öndunarvegi, þ.á.m. hósta og kvefi á byrjunarstigi.

Á 9. áratug síðustu aldar veitti vísindamaður að nafni D. Mowrey því athygli að hylki með engifer drógu úr ógleði hjá sér, sem hann þjáðist af vegna flensu. Þetta leiddi hann til að framkvæma fyrstu tvíblindu rannsóknina á engifer. Þýsk heilbrigðisyfirvöld viðurkenndu fljótlega jurtina sem meðferð við meltingartruflunum og ferðaveiki (t.d. bílveiki og sjóveiki). Á meðan flest ógleðilyf virka gegnum heilann og innra eyra, virkar engifer aðeins á magann.

 

Í tvíblindri rannsókn á sjóveiki sem var gerð á 79 sjóliðum kom í ljós að 1 g af engifer hafði áhrif á uppköst og kaldan svita en hafði ekki áberandi áhrif á ógleði og svima. Að auki var gerð tvíblind rannsókn á 1489 farþegum um borð í skipi og sýndi sú rannsókn að engifer virkaði jafn vel og algeng sjóveikislyf eins og cinnarizine, meclozin, scopolamine o.fl. Enn ein tvíblind rannsókn var gerð á 70 ófrískum konum og varð niðurstaðan sú að ógleði og uppköst minnkuðu töluvert við inntöku á 250 mg af möluðum engifer, þrisvar á dag í fjóra daga. Engar afgerandi aukaverkanir greindust. Rétt er að benda á að ekki hafa verið gerðar rannsóknir sem hrekja eða styðja öryggi engifers á meðgöngu.

Engifer hefur í nokkur ár verið rannsakaður við liðverkjum og bólgum og hafa þessar rannsóknir staðfest virkni hans gegn þessum þrautum. Staðlað engiferþykknið hefur hjálpað mörgum liðagigtarsjúklingum og íþróttafólki. Engiferinn hefur þann kost umfram hefðbundin gigtarlyf að hann veldur ekki magasárum eða öðrum óþægindum.

 

Þar sem engifer er mjög hitagefandi og góður fyrir blóðstreymið er hann tilvalinn fyrir kulvísa. Hægt er að drekka hann ferskan í heitu vatni en einnig er hann að finna í mörgum Yogi teblöndum. Má þar sérstaklega benda á engifer-sítrónu blönduna.

Þeir sem hafa fengið gallsteina eða eru á leið í aðgerð ættu að ráðfæra sig við lækni eða grasalækni áður en engifer er notaður.

 

Heimildir:

  1. Holtmann S, Clarke AH, Scherer H, et al. The anti-motion sickness mechanism of ginger. Acta Otolaryngol. 1989;108:168174.
  2. Grontved A, Brask T, Kambskard J, et al. Ginger root against seasickness. A controlled trial on the open sea. Acta Otolaryngol. 1988;105:4549.
  3. Schmid R, Schick T, Steffen R, et al. Comparison of seven commonly used agents for prophylaxis of seasickness. J Travel Med.1994;1:203206.
  4. Vutyavanich T, Kraisarin T, Ruangsri R. Ginger for nausea and vomiting in pregnancy: randomized, double-masked, placebo-controlled trial. Obstet Gynecol. 2001;97:577582.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.