Alfalfa

Alfalfa heitir einnig Lucerne. Ísl: refasmári, lat: Medicago sativa.

Samkvæmt bókinni Íslenskar lækningajurtir eftir Arnbjörgu Lindu Jóhannsdóttur eru virku efnin í alfalfa eða refasmára eins og hann heitir á íslensku þessi: Prótín, fita, estrógenskyldu efnin formómetín og kúmesteról, ýmis steinefni, beta carótín, B1-, B2-, C-, D-, E- og K-vítamín og beiskjuefnin asparagín og trígónellín. Áhrif: Nærandi og styrkjandi og bætir matarlyst. Notkun: Refasmái er notaður handa afturbatasjúklingum og við þróttleysi. Jurtin er góð fyrir fólk sem þjáist af blóðleysi og þá sem þjást af langvarandi lystarleysi.

 

Bætiefnabókin eftir Harald R. Hóhannesson og Sigurð Ó. Ólafsson segir svo um alfalfa: Alfalfa flokkast til jurta af belgjurtaætt. Lengi hefur verið talið að alfalfa hafi góð áhrif á heilsuna en ekki hefur verið unnt að rökstyðja þetta með rannsóknum. Talið er að alfalfa geti verið gagnlegt í meðhöndlun ofnæmis og í meðferð á liðagigt. Ennfremur er talið að alfalfa geti unnið gegn magaóþægindum og vindverkjum og aukið matarlyst. Alfalfa er góð uppspretta blaðgrænu og vítamína, sérstaklega beta-karótins og E-vítamíns.

Alfalfa-extrakt hefur bakteríudrepandi verkun á ýmsar Gram-jákvæðar bakteríur og á Indlandi hafa alfalfa-fræ verið notuð í kalda bakstra á graftarkýli. Í Kólumbíu hafa aldin alfalfa-plöntunnar verið notuð til að meðhöndla kvef. Fræ alfalfa-plöntunnar innihalda meðal annars amínósýruna L-kanaverín sem er skyld amínósýrunni L-arginín að byggingu. L-kanaverín hefur hamalandi verkun á hvítblæði í músum og gæti því verið gagnleg í meðhöndlun á þessari tegund krabbameins. L-kanaverín hefur líka bakteríudrepandi verkun og getur drepið sumar veirutegundir, t.d. Herpes simplex. L-kanaverín hentar ekki fólki með rauða úlfa.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.