Ætihvönn

Íslenska ætihvönnin hefur merka sögu og hefð að baki. Hvönnin var einkum talin góð fyrir þá sem voru að ná sér eftir erfið veikindi, til að fá aukið þrek og kraft. Einnig var hvönnin notuð við meltingartruflunum s.s. krampa og vindgangi og gegn kvillum í lifur. Hvönnin var talin góð til að losa slím úr öndunarfærum og var hún notuð við lungnakvillum. Hún var notuð til að græða sár og hvannafræ þóttu góð við krabbameinum. Heimildir eru fyrir notkun jurtarinnar gegn svarta dauða á 15. öld og einnig var hún notuð gegn spönsku veikinni fimm öldum síðar.

 

Rannsóknir á Íslandi sýna mikla virkni íslenskra lækningajurta

Vísindamenn hafa lengi gengið í skóla náttúrunnar og reynt að læra af henni á hvern hátt jurtir verjast sýklum (veirum, sveppum og bakteríum) og einnig skordýrum og stærri dýrum. Jurtirnar hafa þróað efnavopn í þessari baráttu og hafa menn viljað læra að nýta sér þau. Lyfjaiðnaðurinn á rætur sínar að rekja til vinnslu slíkra náttúruefna og enn eru nánast öll krabbameinslyf og meiri hluti sýklalyfja unnin beint eða óbeint úr náttúrunni.

Fyrir allmörgum árum hófust rannsóknir á lækningajurtum við Raunvísindastofnun Háskólans. Niðurstöður rannsóknanna sýna að í hvannafræjum eru líffræðilega virk efni sem styrkja ónæmiskerfið. Sömuleiðis eru í þeim afar virk efni gegn algengum bakteríum sem valdið geta hvimleiðum kvillum. Í hvannafræjum eru líka terpen sem hefta vöxt krabbameinsfruma á þann hátt að hreinsa út sjúkar og skemmdar frumur. Einnig eru í þeim efni sem nefnast fúranokúmarín sem í tilraunaglösum ráðast á krabbameinsfrumur og hefta þannig vöxt krabbameins. Þessi efni eru einnig afar virk gegn veirum. Niðurstöður Margretar Guðnadóttur prófessors eru m.a. þær að Angelica vinnur á veirum, m.a. kvefveirum og jafnvel veirum (coxsackie) sem fá lyf vinna á.

 

Áhrif jurtaveigar úr ætihvannafræum á 15 sjálfboðaliða voru könnuð árið 2001 og var reynsla þessara sjálfboðaliða mjög í samræmi við þau áhrif sem lýst er í lækningajurtabókum, aukinn kraftur og vellíðan, jákvæð áhrif á maga og meltingu o.s.frv.

 

Breytileiki í virkni plantna eftir vaxtarstöðum hefur verið rannsakaður. Einnig hefur virkni efna úr íslenskum lækningajurtum verið borin saman við erlendar náttúruvörur úr sams konar jurtum sem vaxa á suðlægari slóðum. Virkni íslensku jurtanna hefur reynst mun meiri. Þetta staðfestir tiltrú manna á ætihvönninni allar götur frá víkingatímanum. Nú er framleidd jurtaveig úr ætihvannafræjum sem markaðssett er undir nafninu Angelica. Þessi jurtaveig er notuð til að auka starfsþrek, fyrirbyggja umgangspestir og auka vellíðan. Einnig gagnast hún til að ná upp þreki og heilsu eftir veikindi.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.