Náttljósarolía / e: Evening Primrose

Náttljós (Evening primrose) er amerískt villiblóm sem dregur nafn sitt af því hve síðla dags það opnar hin viðkvæmu krónublöð sín. Fræ þessa blóms eru ein besta náttúrulega uppspretta cis-gamma-linolen sýru. Sú sýra er önnur af tveimur flokkum fitusýra sem eru lífsnauðsynlegar fyrir líkamann, rétt eins og vítamín.2

Þessir tveir flokkar eru linol sýra og alpha linolen sýra og til þess að líkaminn geti nýtt sér þær verða ákveðin efnahvörf að eiga sér stað inni í líkamanum. Ótal þættir geta truflað og jafnvel komið í veg fyrir þessi efnahvörf t.d. aldur, exem, sykursýki, áfengisdrykkja og ákveðin hormón sem losna við streitu. Því er nauðsynlegt að taka inn olíur sem hafa komist í gegnum þetta skref utan líkamans.4

Í Evrópu hefur náttljósarolía verið notuð gegn liðagigt, exemi, taugasjúkdómi sem tengist sykursýki (diabetic neuropathy) og eymslum í brjóstum kvenna í tengslum við fyrirtíðaspennu. Algengt er að áhrifin komi ekki í ljós fyrr en eftir nokkurn tíma, venjulega þarf að nota olíuna í 2-3 mánuði áður en bati kemur í ljós. Þetta er þó misjafnt, eftir því um hvaða sjúkdóm er um að ræða.2

Ekki er nákvæmlega vitað hver besti dagskammturinn er, en oft er miðað við 200-500 mg af gamma-linolen sýru daglega (2-5 hylki af náttljósarolíu), dreift yfir daginn. Best er að að taka hana með mat til þess að líkurnar á meltingartruflunum verði sem minnstar. 2

Náttljósarolía og fyrirtíðaspenna

Komið hefur í ljós að þær konur sem þjást af eymslum í brjóstum í tengslum við fyrirtíðaspennu hafa truflað fitusýrujafnvægi. Í opnum rannsóknum sem gerðar voru á Bretlandi kom í ljós að 44% kvenna sem þjáðust af sjúkdómnum fundu jákvæð áhrif ef þær tóku náttljósarolíu. Tvíblind rannsókn, þar sem 73 konur tóku þátt, leiddi einnig í ljós að óþægindi minnkuðu töluvert hjá þeim konum sem fengu náttljósarolíu á meðan viðmiðunarhópurinn fann engan mun. Í þessari seinni rannsókn fengu þátttakendur annaðhvort 3 g af náttljósarolíu eða 3 g af lyfleysu daglega í þrjá mánuði án þess að vita um hvort var að ræða.2 Náttljósarolía er einnig talin hafa jákvæð áhrif á önnur einkenni fyrirtíðaspennu sérstaklega þunglyndi og verki í brjóstum.1

Náttljósarolía og exem

Áhrif náttljósarolíu á exem hefur verið rannsökuð allítarlega. Helstu niðurstöður þeirra rannsókna eru þær að hátt hlutfall sjúklinga fær verulegan bata, kláði minnkar mikið, auk þess sem þeir þurfa bara að taka þriðjung af þeim steralyfjum sem þeir þurftu að taka áður. Þetta eru niðurstöður úr m.a. tveimur óháðum rannsóknum.5

Náttljósarolía og liðagigt

Nokkrar rannsóknir hafa einnig farið fram á sjúklingum með liðagigt. Þar kom m.a. í ljós að bólgur og sterk ofnæmisviðbrögð minnkuðu með notkun olíunnar.5 Bestur árangur náðist þegar saman voru notuð náttljósarolía og lýsi. Líkaminn notar fitusýrurnar úr þessum tveimur olíum (GLA og EPA) til að búa til ákveðin prostaglandín og leukotríen en þau efni hafa áhrif á bólgumyndun og sársauka.2 Við inntöku GLA geta komið fram jákvæð áhrif á sjúkdóma sem tengjast bólgumyndun því sýran þynnir út blóðið og víkkar út æðarnar.3 Rannsókn var gerð í Glasgow fyrir nokkrum árum meðal liðagigtarsjúklinga. Alls tóku 52 sjúklingar þátt og um var að ræða þrenns konar hylki, með náttljósarolíu, með náttljósarolíu + lýsi og með sólblómaolíu til þess að sjá Placebo áhrifin. Í ljós kom að 94% þeirra sem fengu náttljósarolíu og 100% þeirra sem fengu náttljósarolíu + lýsi fundu fyrir verulegum bata. Að vísu voru einnig 33% af þeim sjúklingum sem fengu sólblómaolíu sem fannst þeim hafa farið fram en það er þó töluvert lægra hlutfall. Einnig er athyglisvert að sjúklingarnir fundu fyrir þessum mikla bata þó að hinn venjulegi lyfjaskammtur þeirra hafi verið minnkaður töluvert. Það er mjög áhugaverð niðurstaða, sérstaklega þar sem aukaverkanir liðagigtarlyfja eru miklar og sjúklingar myndu gefa mikið fyrir að losna við þær.6

Heimildir:

  1. Laxarides, Linda. The Nutritional Health Bible. Thorsons 1997
  2. www.consumerlab.com
  3. www.vitaminworld.com
  4. Journal of Advancement in Medicine. Vol 3, nr.3. Haust 1990
  5. Reviews in Contemporary Pharmacotherapy, GLA. Editors: S.Johnson og F.N. Johnson. Vol 1, nr.1, 1990.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.