Laxalýsi / e: Salmon oil

Laxalýsi er einstaklega auðugt af omega-3 fitusýrum. Þær hafa fjölþætta gagnlega verkun í líkamanum. Meðal annars stuðla þær að jafnvægi í framleiðslu líkamans á kólesteróli og fyrirbyggja hjarta og æðasjúkdóma.

Í Bætiefnabókinni eftir þá Harald R. Jóhannesson og Sigurð Ó. Ólafsson, segir: Rannsóknir á EPA (eikósapentaenóiksýru) og DHA (dókósahexaenoiksýru) hafa leitt margt merkilegt í ljós. Allt frá 18. öld hefur lýsi verið gefið við liðagigt með nokkuð góðum árangri. Lýsi virðist hægja á framgangi sjúkdómsins og einkennum en læknar ekki liðagigt. Ómega-3 fitusýrurnar breyta hlutfalli prostaglandína í líkamanum þannig að minna myndast af bólgumyndandi prostaglandínum. Flestir vísindamenn eru farnir að hallast að ótvíræðum jákvæðum áhrifum lýsisneyslu á hjarta- og æðasjúkdóma. Annarsvegar getur lýsi haft jákvæð áhrif á samsetningu blóðfitunnar (og dregið þannig úr æðakölkun). Hinsvegar hefur lýsi áhrif á prostaglandín-framleiðsluna og þannig um leið á storknunareiginleika blóðsins.

Í Encyclopedia of Nutritional Supplements segir að jafnvægi milli ómega-6 og ómega-3 fitusýra sé afar mikilvæg fyrir heilbrigð efnaskipti próstaglandína. Próstaglandín eru mikilvæg fyrir m.a. eftirfarandi:

  • blóðþrýstinginn
  • starfsemi hjartans
  • starfsemi meltingarfæra
  • starfsemi nýrna
  • ofnæmisviðbrögð
  • taugaboð
  • steramyndun og starfsemi hormóna
  • að vinna gegn bólgum og verk

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.