CLA – Conjugated Linoleic Acid

CLA (Conjugated Linoleic Acid) er blanda mismunandi ísómera, þ.e. er kemískra forma línólsýru. Línólsýra er fitusýra, nauðsynleg fyrir heilbrigða starfsemi líkamans. CLA auðveldar niðurbrot eða brennslu uppsafnaðrar fitu og stuðlar að því að líkaminn noti fituna til orkumyndunar. Jafnframt hjálpar það til að breyta fitu sem berst reglulega með fæðunni jafnharðan í orku, í stað þess að hún hlaðist upp sem fituvefur.

CLA stuðlar einnig að uppbyggingu vöðva á kostnað fituvefja. Þegar CLA er notað er því verið að ganga á fituvefi líkamans en ekki að losa hann við vökva eins og megrunarkúrar ganga margir út á. Auk þessara mjög svo eftirsóttu eiginleika gefa dýratilraunir vísbendingar um að CLA stuðli að jöfnun blóðsykurs og insúlíns í blóði. Í tilraun á rottum reyndist CLA minnka blóðsykur jafn mikið og hefðbundin sykursýkislyf.

Í J Nutr. (2000;130;2943-2948) er greint frá tvíblindri rannsókn sem gerð var í Noregi með CLA. Þátttakendur í þessari rannsókn voru 60 of þungir einstaklingar og offitusjúklingar. Var þessu fólki skipt í nokkra hópa sem fengu misstóra skammta af CLA og fékk einn hópurinn lyfleysu. Allir voru mældir við upphaf rannsóknarinnar, eftir 6 vikur og 12 vikur. Rannsóknin leiddi í ljós að hjá þeim sem daglega fengu 3,4 g eða meira af CLA hafði líkamsfita minnkað um allt að 20% eftir 12 vikur við óbreytt mataræði, en ekki hjá þeim sem fengu minni skammta eða lyfleysu. Þar sem CLA stuðlar að uppbyggingu vöðva, dró ekki úr líkamsþyngd. Svipuð niðurstaða hefur fengist úr öðrum hliðstæðum rannsóknum, jafnvel hjá fólki sem er í eðlilegri þyngd. (J Int Med Res 2002 Mar-Apr;30(2):210).

Nýleg rannsókn í fylkisháskóla Louisiana í Bandaríkjunum leiddi í ljós að mýs sem fengu CLA blandað í fóðrið í 6 vikur, misstu frá 43% til 88% af líkamsfitu. Önnur rannsókn við Wisconsin-Madison háskóla sýndi hliðstæðar niðurstöður. Einnig kom í ljós í þessari rannsókn að hjá dýrunum sem fengu CLA jókst virkni ensíma sem koma að flutningi fitusýra til vöðvafruma og nýtingu fitu til orkumyndunar. Jafnframt dró úr virkni þeirra ensíma sem stuðla að uppsöfnun fitu.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.