Alpha Lipoic Acid – ALA

Þegar rætt er um hvernig sporna megi við síhækkandi kostnaði heilbrigðiskerfisins, ber ævinlega á góma að auka þurfi forvarnir. Er þá ýmislegt tínt til, svo sem hollara mataræði, aukin hreyfing, minni reykingar eða helst engar, auk ótal annarra þátta sem að gagni koma til að auka á heilbrigði manna.

Í seinni tíð hafa menn uppgötvað nokkur efni sem stuðla að betri heilsu. Eitt þeirra er alfa-lípó-sýra (alpha lipoic acid), yfirleitt skammstöfuð ALA upp á enskuna. Um miðja öldina þegar ameríski lífefnafræðingurinn Ph. D. Lester Reed einangraði ALA, var lítið vitað um þetta efni annað en að það binst bæði vatni og fitu og er nauðsynlegt fyrir heilbrigðan vöxt æskilegra gerla. Síðan þá hafa fjölmargar rannsóknir afhjúpað mikilvægi ALA í viðhaldi heilbrigðis og til að byggja upp varnir gegn algengum erfiðum sjúkdómum.

Eitt mikilvægasta hlutverk ALA er að stuðla að orkumyndun í frumunum. Það er flokkað í hóp kóensíma eða hjálperensíma því það tekur þátt í að útbúa brennsluefni fyrir orkuveitu frumunnar. Það gegnir lykilhlutverki í efnaskiptaferlinu við að breyta blóðsykri í orku. Líkaminn framleiðir ALA, en hæfni hans til þess minnkar með aldrinum. Margir vísindamenn telja að aukaneysla af ALA til að halda magni þess háu í líkamanum, geti aukið orku fyrir mikilvæga starfsemi eins og hreyfingu vöðva, vöxt, viðnámsþrótt og bata skaddaðra vefja.

Á 7. og 8. áratugnum var fyrst farið að nota ALA markvisst hjá sjúklingum með lifrarskaða og truflanir af völdum sykursýki. Burt Berkson M.D., Ph.D., höfundur bókarinnar „The Alpha Lipoic Breakthrough“ og félagar hans hjá Heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna náðu mjög góðum árangri í meðhöndlun sjúklinga sem höfðu orðið fyrir alvarlegum lifrarskaða af völdum eitrana.

Andoxunarhvati

Ein helsta orsök öldrunar eru skemmdir af völdum sindurefna og leifum þeirra sem hlaðast upp í líkamanum í áranna rás. Sindurefni eru niðurbrotsefni eða úrgangsefni sem verða til við efnaskipti og venjulega starfsemi líkamans. Þau sameinast óæskilegum efnum svo sem tóbaksreyk, mengun og ýmsu miður æskilegu sem ofan í okkur fer og saman stunda þessir skæruliðar skemmdarstarfsemi á frumum líkamans. Varnarkerfi hans ræður yfir margþættum efnum til að ráða niðurlögum þessara sindurefna, gera þau óskaðleg og losa sig við þau. Með aldrinum dregur úr getu líkamans til að verja sig og því getur verið gott að aðstoða varnarherinn með öflugu andoxunarefni.

ALA er ekki aðeins öflugt andoxunarefni, heldur eflir það einnig virkni annarra andoxunarefna eins og C-vítamíns, E-vítamíns og glútatíóns.1Rannsóknir sýna að öll þessi efni eru gagnleg til að hægja á ásókn elli kerlingar og til að byggja sig upp gegn alvarlegum sjúkdómum eins og hjartasjúkdómum og krabbameini. Það hefur fyrirbyggjandi áhrif á þróun krabbameins, því það hefur sýnt sig draga úr frumuskiptingu sýktra fruma.2 Við erum fædd með ónæmiskerfi sem eyðir krabbafrumum sem jafnan myndast í líkömum okkar, allt okkar líf. Krabbamein myndast aðeins þegar ónæmiskerfið, einhverra hluta vegna ræður ekki lengur við varnirnar. Andoxandi áhrif ALA draga ekki aðeins úr þróun krabbameins, heldur benda rannsóknir til að það dragi úr eyðileggjandi áhrifum geisla- og lyfjameðferðar.3

Því miður verðum við fyrir meiri áhrifum mengunar en við gerum okkur grein fyrir, jafnvel hérlendis. Fyrir utan útblástur farartækja, reykingar og ótal skaðleg kemísk efni sem við notum í heimishaldinu, geta verið leifar ýmissa kemískra efna svo sem skordýraeiturs, í matnum okkar. Sum þeirra innihalda þungmálma. ALA hefur þann eiginleika að bindast þungmálmum og tryggja losun þeirra úr líkamanum.4,5

Sykursýki

ALA getur einnig gagnast við ákveðnum tegundum sykursýki. Fólk með diabetes mellitus sem einkennist af glúkósaóþoli, hefur yfirleitt lítið magn af glútatíóni í blóðinu. ALA hefur sýnt sig auka magn þess í blóðfrumunum. Það bætir einnig flutning glúkósa frá blóði til fruma, sem getur gagnast sykursjúklingum sem ekki eru háðir insúlíni.6,7 Auk þess staðfesta rannsóknir að ALA bæti taugaskaða af völdum sykursýki og dragi úr verkjum, séu notuð a.m.k. 600 mg á dag.8

Samfara hollum lífsháttum getur ALA reynst öflugur bandamaður til að viðhalda lífsþrótti og góðri heilsu.

Heimildaskrá:

  1. Packer L, et al. Alpha lipoic acid as a biologicla antioxidant. Free Radical Biol Med. 1995;19:227-250.
  2. Suzuki YJ, et al. Alpha lipoic acid is a potent inhibitior of NF-kappa B activation in human T cells. Biochem Biophys Res Commun. 1992;189:1709-1715.
  3. Berger, V. et al. Influence of thioctic acid on the chemotherapeutic efficacy of cyclophosphamide and vincristine sulfate. Arzneimittelforschung. 1988;33:1286-1288.
  4. Gregus Z, et al. Effects of lipoic acid on biliary excretion of glutathione and metals. Toxicol Appl Pharmacol. 1992;114:88-96.
  5. Grunert R. The effect of alpha lipoic acid on heavy metal intoxication in mice and dogs. Arch Biochem Biophysiol. 1960;86:190-195.
  6. Jacob S, et al. Enhancement of glucose disposal in patients with type 2 diabetes by alpha-lipoic acid. Arzneimittelforschung. 1995;45:872-874.
  7. Estrada DE, et al. Stimulation of glucose uptake by the natural coenzyme alpha-lipoic acid/thioctic acid. Diabetes. 1996;45:1798-1804.
  8. Packer L,et al. Alpha-lipoic acid as a biological antioxidant. Free Radic Biol Med. 1995;19:227-250.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.