Að líða vel í eigin skinni

Öll erum við misjafnlega af Guði gerð. Sem betur fer! Varla viljum við öll líta eins út? Sumum fer það reyndar mjög vel að vera með eitthvað utan á sér. Öðrum finnst flottara að vera helst ekki með neina sjáanlega fitu. Sitt sýnist hverjum en að mínu mati skiptir mestu máli að fólki líði vel í eigin skinni.

Einhver kíló til eða frá finnast mér ekki skipta nokkru einasta máli en ef fólk verður allt of feitt getur það farið að valda skaða sem er ekki gott. Á sama tíma ef einhver er of grannur sökum þess að viðkomandi er vannærður er það ekki gott heldur.

Það er ákveðin útlitsdýrkun í gangi og hefur reyndar verið lengi. En er til einhver mælikvarði á hvað er fallegt og hvað er heilbrigt? Er það fituprósenta eða bara eitthvað háð hæð og þyngd?

Er það síðan alveg öruggt að einhver sem er í rosalega góðu formi búi við frábæra heilsu. Heilsa er ekki bara mælikvarði á kjörþyngd og að vera laus við veikindi, heldur samkvæmt alþjóða heilbrigðisstofnuninni stig algerrar líkamlegrar, andlegrar og félagslegrar vellíðunar.

Er það ekki einmitt það sem mestu máli skiptir, að okkur líði vel, ekki hvort við séum aðeins of þung eða of létt.

Best er vissulega að stefna á kjörþyngd og gott form. Hver og einn þarf að skoða lífstíl sinn gagnrýnt og leita leiða til að gera betur. Þeir sem vilja létta sig þurfa líklega að skoða mataræðið, að kappkosta við að velja fersk og næringarrík matvæli. Borða mat eins og náttúran gefur, ekki unnið drasl sem inniheldur litla sem enga næringu. Á sama tíma er gott að setja sér markmið um reglubundna hreyfingu, að gera eitthvað daglega. Fara í ræktina, út að ganga, í sund, finna sér eitthvað skemmtilegt að gera sem tengist hreyfingu.

Heilsukveðja

Víðir Þór

Íþrótta-og heilsufræðingur